Bekkurinn á ekki að vera þægilegur

„Ég tók þátt í að hanna varamanna­skýlin og smíða ásamt Karli Hákoni hjá Blikki á Selfossi,“ segir Ingþór Jóhann Guðmunds­son, leikmaður Selfoss­liðsins í knatt­spyrnu.

„Þetta er hágæða sunn­lensk framleiðsla. Handgerð og allt.“

Skýlin hafa vakið eftirtekt hjá liðum sem hafa komið í heimsókn á Selfoss. „Ég heyrði eitthvað af því að Keflvík­ingar vildu kaupa af okkur svona skýli, en það hefur ekkert orðið af því ennþá,“ segir Ingþór.

En hvað ætli sé svona gott við þau? „Við bættum við aftari bekkn­um svo það myndi rúma 14 manns, en ekki bara 6 til 8 eins og önnur skýli. Svo eru líka kaffibolla­haldarar fyrir starfsmenn liðsins. Ómar Valdimars og Gummi Ben vildu endilega fá þá. Ég þyrfti kannski að hanna nýja fyrir núverandi þjálfara,“ segir Ingþór.

Hann er þó á því að skýlin séu ekkert rosalega þægileg. „Vara­manna­bekkurinn á ekki að vera þægilegur, það sagði Gummi Ben allavega. Ég vildi hafa Recaro stóla eins og ensku deildinni en það þótti of þægilegt,“ segir Ingþór. „Ég held að það sé vanda­málið með leikmennina í ensku deild­inni að varamannabekkirnir eru of þægilegir.“

Ingþór þvertekur fyrir að hafa verið fenginn til að taka þátt í hönnun skýlanna vegna mikillar reynslu sinnar af bekkjarsetu. „Sú reynsla hefur komið eftir að skýlin komu. Það getur hvaða fábjáni farið á www.ksi.is og séð það,“ segir Ingþór og hlær.