Beint: Árborg 3-1 KFS (Leik lokið)

Árborg og KFS eigast við í 8-liða úrslitum 3. deildar karla í kvöld. Leikurinn er kl. 20:00 á Selfossvelli og er bein lýsing frá honum hér.

90.mín – peep peep peep, leik lokið hér á Selfossi, frábær sigur Árborgara sem hafa hreinlega aldrei litið eins vel út í 10 ára sögu sinni. Þeir eru núna komnir í undanúrslit og eru einu einvígi frá því að spila í 2.deild að ár. Gáfulegri umfjöllun er væntanleg um leikinn seinna í kvöld með myndum og eins er bent á að hægt verður að sjá viðtöl á fótbolta.net, í þessum skrifuðu orðum er verið að ræða við kampakátan Adolf Bragason þjálfara Árborgar á meðan liðið hans er inni í klefa að syngja Hesta Jóa, þjóðsöng Árborgara á hæsta styrk.

90.mín – Rautt á Ásgeir Ingimarsson fyrir tæklingu á Jakobi. Ég vissi ekki einu sinni að hann væri kominn inná. Eins var ég að ég laglega að ruglast á Tomma Kjartans sem er alls ekkert frá Rangárvallarsýslu heldur bara frá Selfossi.

89.mín – Frábær barátta í Hartmanni sem vann boltann af miðverði eyjamanna og komst í gott færi sem Guðjón Orri varði vel í horn. Hartmann er annars diet útgáfan af Einari Ottó bróðir sínum enda nokkrum árum yngri.

88.mín – MAAARRRK Hartmann og Árni Páll spóla sig í gegnum vörn gestanna og átti Árni Páll ekki í neinum vandræðum að klára færið einn á móti markmanni. Einar Karl formaður Árborgar hefur gefið nammi úr bland í poka sem keypt er fyrir hvern leik. Þetta er hefð eftir hvert mark og að þessu sinni er pokinn að verða búinn.

83.mín – Tommi Kjartans útaf og Óðinn Steinsson inná. Leikurinn er í jafnvægi hérna og Árborg er að sigla þessu örugglega í höfn. Liðið hefur fengið á sig 8 mörk alls í vetur, rúmlega helmingi minna en Guðmundur Ármann hefur skorað fyrir liðið og eins og sjá má í þessum leik er þessi góða vörn engin tilviljun.

80.mín – Ingólfur er kominn útaf hjá KFS en ég bara hreinlega veit ekki hver kom inná. Það má skipta allt of oft inná í þessari deild.

77.mín – Þá er komið að stundinni sem við höfum öll verið að bíða eftir, Árni Sigfús er kominn inná fyrir Gumma Garðar og nú býst ég fastlega við tveimur mörkum í viðbót.

72.mín – Gummi Garðar með gott skot fyrir utan teig en boltinn flaug rétt yfir markið.

69.mín – Hartmann og Eiríkur Elvy koma inná fyrir Halla og Guðmund Ármann.

64.mín – Árni Páll fær gult fyrir brot. Nokkuð merkilegt þar sem Árni Páll kom ekki við neinn leikmann KFS.

63.mín – Sæþór Jóhannesson bróðir Steingríms Jó (m.a.) er kominn af velli fyrir Trausta Hjaltason.

61.mín MAAAARRRRK Bjarni Rúnar er búinn að minnka muninn fyrir KFS. Hann skoraði af öryggi út vítinu.

61.mín – Víti, líklega hendi á Njörð. Jón Auðun fær gult fyrir mótmæli og er að ég held í banni í næsta leik.

58.mín – Teddi kemur af velli og inn kemur Árni Páll. Á sama tíma kemur Steinar útaf fyrir Val Smára hjá KFS.

56.mín – MAAARRRRK ÁRBORG ER KOMIÐ Í UNDANÚRSLIT!! Þetta var allt of flókið mark fyrir mig því ég er ekki viss hvort boltinn lak af Guðmundi Ármanni eða af varnarmanni KFS. Færið kom eftir hornspyrnu sem eyjamenn hreinsuðu, boltinn fór þaðan í að ég held Gumma Á og þaðan lak hann inn. Klaufalegt hjá gestunum og ef við miðum ennþá við TIndastól þá er Árborg komið í Varmahlíð núna að pulsa sig upp.

55.mín – Áhorfendur í dag eru 131 talsins og þrír þeirra eru að leika sér á aðalvellinum. Skammarleg mæting miðað við mikilvægi leiksins, Árborg hefur t.a.m. ekki spilað stærri leik í sögu félagsins.

54.mín – Örvar Rafn er að stríða KFS mönnum mikið þessa stundina, núna tók hann góða sprett frá hægri kanti og inn á miðjuna þar sem hann sendi innfyrir á Gumma Gaðar sem var kominn einn í gegn á móti Guðjóni Orra sem varði vel. Gujón Orri er góður í markinu.

50.mín – Örvar Rafn með hornsyrnu á hættulegum stað sem Guðjón Orri sló út í teiginn, beint á Guðberg sem skallaði að marki en eyjamenn björguðu á línu.

46.mín – Þá erum við komin af stað aftur og eyjamenn byrja með látum og mátti Einar hafa sig allann við að verja gott skot frá Sæþóri í fyrstu sókn seinni hálfleiks.

Hálfleikur – Árni Birgisson var hérna að árétta að hann héti Sigfús að millinafni og eins lofar hann að skora tvö mörk í kvöld fái hann að koma inná í þessum leik. Hann hefur alltaf skotið yfir í upphitun… og sýndi það hér í leikhléi og fannst það vera merki þess að hann ætti inni tvö mörk.

45.mín – Þá er búið að flauta til hálfleiks hér á Selfossvelli, Jón Auðun braut ísinn loks fyrir heimamenn sem voru mun líklegri allann tímann þó eyjamenn hafi átt nokkra góða spretti líka.

44.mín – Steinar Ernir leikmaður KFS fær verðskuldað gult fyrir brot á Gumma Garðari

42.mín – MAAAARRRKKK Jón Auðun skorar sitt þriðja mark í þessu einvígi!!! Frábært mark hjá fyrirliðanum sem fékk háan bolta frá Arnari og í stað þess að taka boltan niður skallaði Jón Auðunn boltann bara létt yfir Guðjón í markinu sem var kominn of langt út. Flott mark hjá Árborg sem er komið í Staðarskála ef við miðum við að Tindastóll bíður í undanúrslitum.

40.mín – Ekki mikið að gerast þessa stundina.

31.mín – Frábær markvarsla hjá Einari markmanni Árborgar er hann skutlaði sér sjónvarpsmarkvörslustyle í skot frá Bjarna Rúnari.

27.mín – Örvar Rafn rétt búinn að skora fyrir Árborg en varnarmenn KFS bjarga á línu.

25.mín – Hjalta þjálfara KFS var tilkynnt af Þórði Gylfasyni dómara að hann vildi ekki heyra eitt orð frá honum meira!! Eitthvað segir mér að Hjallti hafi heyrt svipaða hluti áður frá dómara.

23.mín- Ágæt sókn hinumegin og endaði með ágætu skoti frá Sæþóri sóknarmanni KFS sem endaði í varnarmanni Árbogar og þaðan í horn.

22.mín – Jón Auðun með skalla í utanverða stöngina rétt í þessu. Eitthvað verður undan að láta hérna.

18.mín – Guðjón Orri markmaður KFS er gjörsamlega að halda þeim á lífi hérna. Fyrst varði hann dauðafæri frá Gumma Garðari sem átti bara markmanninn knáa eftir og í kjölfarið fékk Halli boltann í teignum en aftur varði Guðjón ljómandi vel. Heimamenn líta vel út þessa stundina.

16.mín – Halli með góða aukaspyrnu fyrir Árborg sem varnarmenn KFS náðu að hreinsa en einungis beint á Gumma Garðar sem var í fínu skotfæri en skotið fór beint á Guðjón Orra í marki gestanna. Árborgarar hafa haft undirtökin sl. mínútur.

10.mín – Ágætt upphlaup hjá heimamönnum endar með góðum bolta frá Tedda sem endar á kollinum á Gumma Á en skalllinn var laus og auðveldur viðureignar fyrir Guðjón Orra í markinu. Árborg er að sækja aðeins í sig veðrið þessa stundina.

7.mín – Leikurinn fer nokkuð rólega af stað og bæði lið virka nokkuð stressuð.

4.mín – Bæði lið stilla upp sókndjörfu 4-5-1 kerfi. Hjá Árborg er Einar í marki, Guðbergur vinstri bak, Njörður og Jakob í miðvörðum og Örvar Rafn í hægri bak. Arnar er djúpur á miðjunni og fyrir framan hann eru Halli og Jón Auðunn. Teddi er á hægri kanti og Gummi Garðar á þeim vinstri og frammi er síðan að sjálfsögðu Guðmundur Ármann Böðvarsson.

1.mín – Þá er búið að flauta til leiks og það eru eyjamenn sem byrja með boltann og sækja að Selinu.

20:00 – Þá er allt að verða klárt hér á Selfossvelli, ennþá eru nokkur sæti laus í stúkunni og því um að gera að drífa sig á völlinn!

19:55 – Til að kynna lið KFS aðeins þá er Birkir Hlynsson fyrrum leikmaður Selfoss djúpur á miðjunni, Sæþór er sóknarmaðurinn og Tommi Kjartans er hægri bakvörður þrátt fyrir að vera þekkt markamaskína á sínum heimaslóðum í Rangárvallarsýslunni. Á bekknum er svo Óðinn Steinsson sem er jafnframt formaður KFS og verður að teljast magnað að hann hafi ekki drifið í liðið miðað við það. Trausti Hjaltason er svo sonur Hjalta þjálfara. Að lokum má geta þess að Sigurður Einar Einarsson er kennari á Selfossi og jafnframt í liðstjórnarteymi KFS.

19:45 – Þá hef ég byrjunarliðin og eru þau svohljóðandi:

Byrjunarlið Árborgar: Einar Einarsson (M), Örvar Rafn Hliðdal, Jakob Jakobsson, Arnar Óskarsson, Njörður Steinarsson, Hallgrímur Jóhannesson, Theódór Guðmundsson, Guðmundur Garðar Sigfússon, Guðbergur Baldursson, Guðmundur Baldursson og Jón Auðun Sigurbergsson.

Varamenn: Steinar Stefánsson (M), Hartmann Antonsson, Árni Páll Hafþórsson, Árni Sigfús Birgisson, Eiríkur Elvy.

Bekkur: Adolf Ingvi Bragason (Þjálfari), Stefán Magni Árnason (Hjúkka), Einar Karl Þórhallsson (forráðamaður), Torfi Ragnar Sigurðsson (vatnsberi nr.1) og Guðmundur Karl Sigurdórsson (lukkudýr).

Byrjunarlið KFS: Guðjón Orri Sigurjónsson (M), Hilmar Ágúst Björnsson, Davíð Egilsson, Steinar Ernir Knútsson, Ingólfur Einarsson, Tómas Kjartansson, Birkir Hlynsson, Einar Kristinn Kárason, Sæþór Jóhannesson, Guðjón Ólafsson og Bjarni Rúnar Einarsson.

Varamenn: Valur Smári Heimisson, Óðinn Steinsson, Ásgeir Ingimarsson, Trausti Hjaltason, Andri Eyvindsson.

Bekkur: Hjalti Kristjánsson, Sigurður Einar Einarsson.

19:35 – Það er orðið ljóst að sigurvegarinn úr þessu einvígi þarf að kljást við Tindastól frá Sauðárkróki í næstu umferð. Fyrri leikurinn er heimaleikur þess liðs sem sigrar hér í dag og fer fram á laugardaginn næsta. Seinni leikurinn verður síðan fyrir norðan á miðvikudaginn stuttu eftir drekkutíma.

19:30 – Talandi um Hjalta þjálfara KFS þá er hann að ég held alveg örugglega eini þjálfari KFS frá upphafi (1997) og er óhætt að segja að hann hafi unnið magnað starf með þetta sameinaða lið stórveldanna Framherja og Smástundar.

19:25 – Heimamenn er mættir út á völl að hita upp og virka hinir hressustu en Hjalti Kristjánsson og hans menn eru ennþá inni í klefa að fara yfir leikskipulag og vonandi að fylla út leikskýrslu.

19:20 – Ég lagði eyrað á klefahurðina hjá Árborg og heyrði þar Adolf Bragason í miðjum klíðum í ræðu sinni fyrir leikinn, Addi nær auðveldlega að segja yfir 1500 orð á mínútu en vandinn er að hann talar mjög mikið og því allskostar óvíst hvort Árborg nái að hefja leik á slaginu 20:00. Eina sem ég náði þó að heyra er að spila á 4-3-3 og skipta svo í stífa 6-0 vörn er KFS er með boltann.

19:05 – Leikmenn KFS eru bara rétt að tínast í hús en ég hendi inn byrjunarliðum um leið og ég hef þau klár

18:59 – Sjálfur heiti ég Einar Matthías og kem til með að vera með ykkur þar til leik líkur. Sjálfur er ég ótrúlega sjóndapur miðað við að vera duglegur í svona textalýsingum og kem því bara til með að slumpa í eyðurnar. Eins viðurkenni ég að þekking mín á KFS liðinu mætti vera betri og hvet ég lesendur hvort sem þeir halda með KFS eða Árborg að senda mér línu á einar@babu.tk ef þeir luma á einhverjum fróðleik eða léttmeti sem ætti jafnvel heima á þessum vettvangi.

18:55 – Góðan og blessaðan daginn ágæti áhorfandi og velkominn í beina textalýsingu frá Selfossvelli. Hér á gervigrasinu klukkan 20:00 hefst leikur Knattspyrnufélagsins Árborgar og eyjapeyjanna í KFS og er um að ræða risastóran leik fyrir þessi lið enda þýðir sigur hér í dag sæti í hreinum úrslitaleik um sæti í 2.deild karla á næsta ári. Þess ber að geta að þetta er seinni leikur liðanna og leiða heimamenn einvígið með tveimur mörkum eftir góða ferð til Vestmannaeyja sl. laugardag.

18:41 – Liðin eru mætt á Selfossvöll en bein lýsing hefst laust fyrir klukkan átta.