Basti skellti í lás

Selfyssingar unnu frábæran sigur á Víkingi í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Góður endasprettur tryggði liðinu þriggja marka sigur, 24-27.

Leikurinn byrjaði af mikilli hörku eins og oft sést í viðureignum þessara liða. Staðan var 5-5 eftir fimmtán mínútur en þá tóku Selfyssingar við sér og náðu tveggja marka forskoti, 7-9. Víkingar svöruðu með góðum kafla og höfðu sanngjarna forystu í hálfleik, 12-10.

Víkingar léku lausum hala í sókninni í upphafi síðari hálfleiks og Selfyssingar voru í eltingaleik við þá allt þar til tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá small Selfossvörnin loksins saman og náðu Selfyssingar að breyta stöðunni úr 19-17 í 21-22.

Lokamínúturnar voru æsipennandi en Selfyssingar höfðu frumkvæðið og hefðu hæglega getað aukið forskot sitt enn frekar en lokatölur urðu 24-27.

Sebastian Alexandersson, markvörður Selfoss, var maður leiksins með 22 skot varin og 48% markvörslu. Matthías Örn Halldórsson var markahæstur með 7 mörk, Einar Sverrisson skoraði 5, Magnús Magnússon 4, Andri Hrafn Hallsson og Sverrir Pálsson 3 og þeir Jóhannes Snær Eiríksson, Jóhann Erlingsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Ómar Ingi Magnússon og Andri Már Sveinsson skoruðu allir eitt mark.

Fyrri greinBjörgvin ráðinn ritstjóri á Menningarpressunni
Næsta greinStyttan af Páli afhjúpuð við Þuríðarbúð