Barros skoraði þrennu

Elton Barros átti frábæran leik í dag en hann skoraði öll mörk Selfyssinga þegar þeir sigruðu Fram 1-3 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í Egilshöllinni.

Barrros kom Selfyssingum yfir strax á 6. mínútu leiksins þegar hann sneri af sér varnarmann og hamraði boltann upp í samskeytin. Framarar jöfnuðu á 38. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var Barros aftur á ferðinni. Hann fékk boltann á kassann fyrir framan mark Fram, lagði hann fyrir sig og afgreiddi hann upp í þaknetið af stuttu færi.

Selfyssingar kórónuðu svo 1-3 sigur á lokamínútu leiksins og enn var Barros á ferðinni þegar hann vippaði boltanum snyrtilega yfir markvörð Framara.

Selfoss er í 2. sæti riðilsins með sjö stig, tvo sigra, eitt jafntefli og eitt tap.

Fyrri greinFyrsti bikarmeistaratitill Selfyssinga í meistaraflokki
Næsta greinÆgir vann Suðurlandsslaginn