Barbára Sól og Dagur Fannar íþróttafólk Umf. Selfoss 2020

Bárbara Sól Gísladóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir og frjálsíþróttamaðurinn Dagur Fannar Einarsson voru valin íþróttafólk Ungmennafélags Selfoss árið 2020.

Valið var tilkynnt í kvöld á aðalfundi ungmennafélagsins sem stendur nú yfir í fjarfundi.

Barbára Sól er ein af lykilleikmönnum meistaraflokksliðs kvenna og er, þrátt fyrir ungan aldur, orðin einn leikreyndasti leikmaður kvennaliðs Selfoss. Árið 2020 var Barbára valin í fyrsta sinn í A-landslið Íslands og spilaði með landsliðinu í undankeppni EM þar sem Ísland tryggði sér þátttöku á lokamóti EM 2022, hún spilaði einnig alla leiki U19 landsliðsins á árinu.

Dagur Fannar varð Íslandsmeistari í níu greinum í unglingaflokki auk þess sem hann varð Íslandsmeistari í 400 m grindahlaupi í fullorðinsflokki. Hann setti 23 héraðsmet á árinu og sýnir það styrk hans. Dagur Fannar á heima í hópi þeirra bestu í fjölþrautum á Norðurlöndunum í sínum aldursflokki og hafði unnið sér inn keppnisrétt á Norðurlandameistaramót unglinga í tugþraut árið 2020 en það var fellt niður vegna COVID-19.

Jón Karl og taekwondodeildin verðlaunuð
Fleiri viðurkenningar voru veittar á aðalfundinum en Jón Karl Jónsson fékk Björns Blöndals bikarinn fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins og taekwondodeild Umf. Selfoss var valin deild ársins fyrir metnaðarfullar heimaæfingar í heimsfaraldri.

Dagur Fannar Einarsson. Ljósmynd/Marta María Bozovic
Fyrri greinHeiðrún og Breki íþróttafólk HSK 2020
Næsta greinHarðar aðgerðir til að brjóta smitkeðjuna