Barbára Sól lánuð til Bröndby

Barbára Sól Gísladóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnudeild Selfoss hefur komist að samkomulagi við danska úrvalsdeildarliðið Bröndby um að lána Barbáru Sól Gísladóttur til félagsins. Lánssamningurinn gildir til áramóta með möguleika á því að hún verði seld til danska félagsins í framhaldinu.

Þrátt fyrir að vera aðeins tvítug að aldri hefur Barbára Sól verið algjör lykilmaður í kvennaliði Selfoss undanfarin fimm ár. Hún hefur spilað 108 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss og hampað bæði bikarmeistaratitli 2019 og titlinum meistarar meistaranna 2020. Hún lék sína fyrstu A-landsleiki haustið 2020.

„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum með Bröndby og ég trúi því að þetta sé gott næsta skref fyrir mig. Bröndby er mjög gott og spennandi lið, með mjög góða umgjörð. Það hefur alltaf verið draumurinn minn að fara út í atvinnumennsku. Ég er mjög þakklát fyrir allt sem Selfoss hefur gefið mér, þar hef ég fengið að þroskast og þróast sem leikmaður, hef fengið mikið traust og verið hluti af frábærri liðsheild. Fyrir það vil ég þakka og óska liðinu mínu alls hins besta á lokasprettinum í sumar,“ segir Barbára Sól.

Við óskum Barbáru Sól til hamingju með þetta stóra skref á ferlinum og að henni vegni vel hjá nýju liði.

Fyrri greinGuðmundur leiðir sósíalista í Suðurkjördæmi
Næsta grein161 í einangrun á Suðurlandi