Barbára og Haukur íþróttafólk Árborgar 2019

Barbára Sól Gísladóttir og Haukur Þrastarson voru valin íþróttafólk ársins í Árborg í fyrra. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Umf. Selfoss, voru í kvöld útnefnd íþróttakona og -karl Sveitarfélagsins Árborgar 2019.

Úrslitin voru kynnt á árlegri og mjög fjölmennri uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar Árborgar á Hótel Selfossi.

Haukur er lykilmaður í liði Selfoss sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í handbolta í vor. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Á yfirstandandi tímabili er Haukur markahæsti leikmaður deildarinnar með 114 mörk. Haukur er fastamaður í landsliði Íslands og lék í janúar með liðinu á HM í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaður í sögu Íslands til að leika á stórmóti í handbolta.

Barbára Sól er lykilleikmaður í kvennaliði Selfoss í knattspyrnu en liðið hampaði bikarmeistaratitlinum í fyrsta skipti í sumar eftir glæstan sigur á KR í framlengdum úrslitaleik. Í Pepsi Max deildinni varð liðið í þriðja sæti og jafnaði sinn besta árangur frá upphafi. Barbára spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar á tímabilinu og lék þar að auki alla þrettán leiki U19 ára liðs Íslands á þessu ári.

Bæði nálægt fullu húsi stiga
Sérstök valnefnd kaus íþróttafólk ársins en einnig fór fram kosning á netinu sem vóg 20% á móti atkvæðum valnefndarinnar. Mest var hægt að hljóta 102 stig í kjörinu.

Barbára Sól sigraði með 96 stig, önnur varð Eva María Baldursdóttir, frjálsíþróttakona úr Umf. Selfoss með 71 stig og þriðja Heiðrún Anna Hlynsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbi Selfoss með 69 stig.

Hjá körlunum hlaut Haukur 100 stig, annar varð júdómaðurinn Egill Blöndal, Umf. Selfoss, með 62 stig og þriðji frjálsíþróttamaðurinn Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, með 48 stig.

Fjöldi viðurkenninga og ausið úr afrekssjóðum
Á verðlaunahátíðinni var fjöldi íþróttamanna og liða í Árborg heiðruð en það voru þeir sem unnu Íslands- eða bikarmeistaratitil á árinu. Auk þess úthlutuðu íþróttafélögin úr afrekssjóðum sínum. Þá veitti sveitarfélagið hlaupahópnum Frískum Flóamönnum hvatningarverðlaun nefndarinnar 2019, en hópurinn fagnar 20 ára afmæli á þessu ári.

Guðbjörg Jónsdóttir, formaður frístunda- og menningarnefndar Árborgar, afhenti þeim Eydísi Kötlu Guðmundsdóttur og Svanlaugu Kjartansdóttur, frá Frískum Flóamönnum, hvatningarverðlaun nefndarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinStærri leitaraðgerðum frestað um sinn
Næsta greinMarín Laufey glímukona ársins