Barbára með glæsimark í tapi gegn Val

Barbára Sól skoraði bæði mörk Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 4-1 gegn Val í hörkuleik á útivelli í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en Barbára Sól Gísladóttir kom Selfyssingum yfir með glæsilegu marki á 34. mínútu en Valskonur jöfnuðu strax í næstu sókn. Þar var að verki Elín Metta Jensen. Hún lét aftur til sín taka á 44. mínútu þegar hún steig á boltann innan vítateigs og datt og dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Elín skoraði sjálf úr spyrnunni og Valur leiddi 2-1 í hálfleik.

Valskonur voru mun sterkari í seinni hálfleiknum en tókst þó ekki að skora fyrr en á 81. mínútu þegar Elín Metta kórónaði þrennuna. Guðrún Karítas Sigurðardóttir bætti svo við fjórða marki Vals á lokamínútunni. Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar í seinni hálfleik en vörðust af krafti. Þær vöknuðu þó aðeins sóknarlega á lokakaflanum en þá voru Valskonur búnar að gera út um leikinn.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 6 stig, eins og þrjú önnur lið, en lakasta markahlutfallið.

Fyrri grein„Ógrynni af hlutum sem væri hægt að finna not fyrir“
Næsta greinViðar maður leiksins í jafntefli gegn Guðmundi