Baráttusigur á Eyjamönnum

2. flokkur karla Selfoss/Hamar/Ægir/Árborg sigraði nágranna sína í ÍBV 4-2 á JÁVERK vellinum á mánudagskvöld.

„Við erum mjög ánægðir með leikinn. Þetta var mjög kærkominn sigur í erfiðum leik sem einkenndist af mikilli spennu og tilfinningum. Við erum mikið búnir að tala um andlega hlutann og mér fannst leikmenn höndla spennustigið mjög vel. Við leggjum mikið upp úr því að leikmenn sýni yfirvegun og ró í sínum leik. Mér fannst frammistaðan heilt yfir vera mjög þroskuð og við erum á réttri leið með okkar leik. Á meðan við vinnum baráttuna á vellinum þá erum við til alls líklegir,“ sagði Adólf Bragason annar þjálfara liðsins í viðtali við sunnlenska.is.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og ljóst var að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Selfoss komst í 1-0 á 12. mínútu eftir gott aukaspyrnumark Sindra Pálmasonar. Gestirnir frá Vestmannaeyjum fengu kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn á 43. mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu. En Axel Örn Sæmundsson, góður markvörður Selfyssinga, gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna. Staðan 1-0 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Selfyssingar komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og komust í 2-0 með marki Gunnars Bjarna Oddsonar sem skoraði af harðfylgi á 54. mínútu. Arilíus Óskarsson bætti síðan við þriðja markinu við á 63. mínútu með góðu skoti úr teig eftir fallegt samspil og staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn.

Eyjamenn gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn á 72. mínútu í 3-1. Gestirnir freistuðu þess að komast aftur inn í leikinn en Selfyssingar gerðu út um þær vonir á 79. mínútu með fallegasta marki kvöldsins. Þar var að verki Arnar Logi Sveinsson sem rak endahnútinn á glæsilega sókn heimamanna sem bar suðrænan keim. Staðan því orðin 4-1 þegar 10 mínútur voru til leiksloka. ÍBV minnkaði munin í blálokin og þar við sat.

Lokatölur 4-2 fyrir heimamenn sem lyftu sér með sigrinum upp í efri hluta deildarinnar.

Næsti leikur 2.fl karla verður á Seltjarnarnesi gegn Gróttu 30. Júní

Fyrri greinVarað við vindstrengjum undir Eyjafjöllum
Næsta greinMikið spurt um Þrándarlund