Baráttan skilaði stigi gegn meisturunum

Selfoss náði í gott stig í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar Íslandsmeistarar Þórs/KA komu í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli.

„Við gerðum hlut­ina vel í dag og börðumst vel fyr­ir þessu stigi. Þannig er þetta hérna á þess­um velli, það er eng­inn að koma á okk­ar heima­völl til þess að taka eitt­hvað af okk­ur,“ sagði Al­freð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn hinn fjörugasti, norðankonur byrjuðu betur og fengu frábær færi í fyrri hálfleik en Caitlyn Clem átti stórleik í marki Selfoss.

Síðari hálfleikurinn þróaðist svipað og sá fyrri en þegar leið á gaf Þór/KA eftir á miðjunni og Selfyssingar fóru að fá meira pláss til þess að athafna sig. Það gaf þeim vínrauðu færi á skyndisóknum en engin þeirra skilaði marki.

Selfoss er nú með 5 stig í 6. sæti deildarinnar en Þór/KA missti toppsætið í hendur Breiðabliks í kvöld. Þór/KA er í 2. sæti með 16 stig.

Fyrri greinKosið í nefndir á fyrsta bæjarstjórnarfundi í Árborg
Næsta greinÖflugur sigur hjá Hamri