Baráttan harðnar á botninum

Hamar á harða baráttu framundan í botnslag Iceland-Express deildar karla í körfubolta. Hamar tapaði fyrir botnliði KFÍ í gærkvöldi, 86-83.

Leikurinn var jafn en það voru heimamenn sem byrjuðu betur og leiddu allan fyrri hálfleik, þó að munurinn yrði aldrei mikill. Staðan í hálfleik var 45-39.

Hamar skoraði fyrstu átta stigin í seinni hálfleik og komst yfir, 45-47, áður en heimamenn svöruðu fyrir sig. Þriðji fjórðungurinn var hnífjafn en staðan að honum loknum var 62-60. Jafnræðið hélt áfram fram í síðasta leikhlutann en þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir skoraði KFÍ níu stig gegn tveimur á tveimur mínútum og komst í 82-76, þegar mínúta var eftir á klukkunni.

KFÍ kláraði leikinn á vítalínunni á síðustu mínútunni en Hamar náði að minnka muninn niður í þrjú stig, 86-83. Hvergerðingar hefðu þó getað gert betur því Darri Hilmarsson og Devin Sweetney misnotuðu fjögur vítaköst á lokamínútunni.

Darri var stigahæstur Hamarsmanna með 27 stig, Sweetney skoraði 25 og Svavar Páll Pálsson 11.

Selfyssingurinn Ari Gylfason skoraði 10 stig fyrir KFÍ.

KFÍ er enn á botninum með 8 stig, Fjölnir er með 10 og Hamar 12 í þremur neðstu sætunum þegar fjórum umferðum er ólokið.

Fyrri greinSigurganga Þórs heldur áfram
Næsta greinLögreglan beitti piparúða við handtöku