Bára Kristbjörg ráðin aðstoðarþjálfari

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, býður Báru Kristbjörgu velkomna á Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, auk þess sem hún verður sjúkraþjálfari liðsins.

Bára Kristbjörg kemur til Selfoss frá Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún þjálfaði U17 og U19 ára lið félagsins og var sjúkraþjálfari meistaraflokks. Áður en hún fór til Svíþjóðar hafði hún þjálfað hér heima, meðal annars hjá Augnabliki, FH, Val og Stjörnunni.

Hún verður aðstoðarþjálfari Björns Sigurbjörnssonar, sem ráðinn var til Selfoss í vetur, en Björn var aðstoðarþjálfari hjá Kristianstad.

„Mig langaði til þess að flytja heim og það heillaði mig mikið að halda áfram að vinna með Bjössa, því við vorum byrjuð á því úti. Það er ótrúlega gott að geta flutt heim og haldið áfram okkar góða samstarfi. Selfoss er með skemmtilegt lið og hér er ótrúlega spennandi uppbygging. Ég á von á jafnri og spennandi deild næsta sumar og Selfoss á góða möguleika á því að ná árangri, annars væri ég ekki komin hingað,“ segir Bára Kristbjörg.

Fyrri greinRéttindalaus vörubílstjóri stöðvaður
Næsta greinÞrír uppaldir framlengja