„Bara æsingur og rugl“

Atli Ævar Ingólfsson, markahæsti leikmaður Selfoss, gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það eru ýmsar leiðir færar til þess að tapa bikarleik í handbolta. En það að tapa með flautumarki í framlengingu hlýtur að vera ein sú mest svekkjandi. Sú varð raunin í kvöld eftir magnaðan handboltaleik Selfoss og KA í undanúrslitum bikarkeppni karla á Ásvöllum í Hafnarfirði. KA sigraði 28-27 með marki á lokasekúndu framlengingar.

„Þetta verður ekki meira svekkjandi. Það vantaði mikið inn í frammistöðuna hjá okkur í kvöld. Það er ótrúlegt að við séum bara að fá okkur 28 mörk í framlengdum leik og 23 mörk í venjulegum leiktíma og við erum með sjö bolta varða í leiknum. Munurinn í þessum leik er bara markvarslan. Punktur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar geta reyndar þakkað fyrir að hafa náð að knýja fram framlengingu. Þeir voru fimm mörkum undir þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en tókst á ótrúlegan hátt að skora síðustu fimm mörk leiksins og jafna 23-23.

„Við gerðum hrikalega vel á lokakaflanum að jafna leikinn og komast í framlengingu. Þar var allt í járnum en það var hrikalega stór dómur þegar Ísak skorar og fær dæmdan á sig ruðning í lokin. Það er auðvelt að dæma ruðning á 18 ára strák, ég fullyrði að Ásbjörn Friðriksson hefði ekki fengið þennan ruðning á sig. Ég var mjög ósáttur við þennan dóm og það var aldrei möguleiki fyrir Ísak að losa boltann,“ sagði Halldór Jóhann og bætti við að svekkelsið væri ótrúlegt.

„Ég er hundfúll að við skyldum ekki ná toppleik hjá fleiri leikmönnum, það voru því miður of margir hjá okkur að spila undir pari. Við vorum oft á tíðum yfirspenntir og þegar við svissum í 6-0 vörnina þá erum við bara að gera einhverja þvælu. Bara æsingur og rugl og ekkert gert af því sem lagt var upp með,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 5/1, Einar Sverrisson 5, Guðjón Baldur Ómarsson og Ísak Gústafsson 3, Hergeir Grímsson 2/1 og þeir Hannes Höskuldsson og Richard Sæþór Sigurðsson skoruðu sitt markið hvor.

Markvarslan var Akkilesarhæll Selfyssinga í kvöld. Vilius Rasimas varði 7 skot og Sölvi Ólafsson ekkert skot. Á meðan varði markvörður KA 18 skot og munaði um minna.

Selfyssingar sigruðu baráttuna um stúkuna. Stuðningmenn liðsins voru frábærir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinTíu Hamarsmenn tryggðu sér sigur
Næsta greinFramboðslisti T-listans samþykktur