Baldur sá við gömlu félögunum

Það var boðið upp á háspennuleik þegar Þór Þorlákshöfn hélt norður á Sauðárkrók og mætti Tindastóli í úrvalsdeild karla í körfubolta í dag.

Þjálfari Stólanna er Baldur Þór Ragnarsson, einn dáðasti sonur Þorlákshafnar, en hann sá við gömlu félögum sínum í dag, því Tindastóll sigraði með einu stigi, 92-91.

Leikurinn var jafn framan af, en í 2. leikhluta náðu Þórsarar forskoti og leiddu 44-52 í hálfleik. Tindastóll komst yfir í upphafi seinni hálfleiks með 10-0 áhlaupi og staðan var þá orðin 63-60.

Liðin skiptust á um að hafa forystuna fyrstu þrjár mínúturnar í 4. leikhluta en þá komst Tindastóll yfir og Þórsarar þurftu að elta allt til leiksloka. 

Styrmir Snær Þrastarson fór mikinn á lokakaflanum fyrir Þór en hann skoraði tíu stig í röð undir lokin og á lokasekúndunum kom Larry Thomas Þór aftur yfir, 90-91. Heimamenn áttu hins vegar síðustu sóknina og uppskáru tvö vítaköst á lokasekúndunni. Þau rötuðu bæði ofaní og heimamenn fögnuðu naumum sigri, 92-91.

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 6 stoðsendingar og Styrmir Snær Þrastarsön átti sömuleiðis góðan leik með 19 stig og 7 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði einnig 19 stig og Callum Lawson 11, auk þess sem hann tók 7 fráköst.

Þrátt fyrir tapið er Þór ennþá í 2. sæti deildarinnar með 24 stig en Tindastóll er í 6. sæti með 18 stig.

Fyrri greinÆgir vann grannaslaginn – Stokkseyri komst áfram
Næsta greinNemandi í BES á Stokkseyri smitaður