Babacar til reynslu hjá Start í Noregi

Babacar Sarr fór til Noregs á þriðjudaginn og er nú til reynslu hjá Start sem er í fyrsta sæti norsku B-deildarinnar og eiga góðan möguleika á því að fara upp um deild.

Start hefur haft áhuga á Babacar í nokkurn tíma, en samkvæmt heimildum Sunnlenska var þessi ferð ákveðin um mitt sumar. Með liðinu spila Íslendingarnir Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson.

Jón Daði Böðvarsson, efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar 2012, fór í dag til Danmerkur þar sem hann mun verða til reynslu hjá Silkeborg í eina viku.

Þar hittir hann Guðmund Árna Ólafsson sem leikur handbolta í sömu borg. „Hann hringdi í mig og við ætlum að hittast þarna svo mér leiðist ekki,“ segir Jón Daði glettinn.

Hann er hóflega bjartsýnn að hann verði orðinn atvinnumaður í knattspyrnu áður en langt um líður. „Það yrði auðvitað góður endi á tímabilinu fyrir mig að enda í atvinnumennsku,“ segir Jón Daði og bætir við að mögulega fari hann til reynslu hjá fleiri félögum á næstunni.

Annar Selfyssingur sem er til reynslu hjá erlendu félagi er Guðmundur Þórarinsson. Hann fór utan á miðvikudaginn til að æfa með norska liðinu Sarpsborg sem er í öðru sæti í norsku B-deildinni á eftir Start.

„Mér líst vel á þetta. Þetta er gott og vel spilandi lið,“ segir Guðmundur en einn íslenskur leikmaður spilar með liðinu, markvörðurinn Haraldur Björnsson. „Það er gott að það sé einn íslenskur þarna ef maður vill spyrja að einhverju.“

Nánar er fjallað um þessi mál á íþróttasíðu Sunnlenska fréttablaðsins.

Fyrri greinFyrsti heimaleikur Selfoss í kvöld
Næsta greinKlukkur Óttars í Listagjánni