Bæjarstjórnin heiðraði Þóri

Bæjarstjórn Árborgar færði Þóri Hergeirssyni, þjálfara kvennalandsliðs Noregs í handbolta, hamingjuóskir og þakklætisvott fyrir sitt framlag en Noregur varð Evrópumeistari á dögunum.

Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar og formaður íþrótta- og menningarnefndar, færði Þóri gjöfina á heimili Hergeirs Kristgeirssonar, föður Þóris, í árlegu fjölskylduboði á Selfossi í kvöld.

Þórir er fæddur og uppalinn Selfyssingur og eins og nærri má geta eru íbúarnir stoltir af honum og hans framlagi enda frábær þjálfari og árangurinn eftir því.

Systkinasynir Þóris leika báðir í Olísdeildinni í handbolta en það eru þeir Hergeir Grímsson leikmaður Selfoss og Janus Daði Smárason leikmaður Hauka og voru viðstaddir þeir í kvöld ásamt allri stórfjölskyldunni.

Þóri var færður veglegur blómvöndur og tvær bækur eftir Selfyssinga með hamingjuóskum frá bæjarstjórn og íbúum.

Fyrri greinKeppt í formum, bardaga og þrautabraut
Næsta greinJarðstrengur tengdur undir Eyjafjöllum