„Aulaskapur að klára þetta ekki“

Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfossliðsins í handbolta, var að vonum svekktur eftir tapið gegn Aftureldingu í kvöld.

„Við byrjuðum með mjög góðri vörn í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vorum við alltof staðir í vörninni og ekki nógu fljótir út til að loka á þá,“ sagði Ragnar í samtali við sunnlenska.is.

„Síðan hrundi sóknarleikurinn hjá okkur á lokakaflanum. Það var eins og menn væru hræddir við að sækja á markið. Það var aulaskapur að klára þetta ekki. Við vorum komnir með þriggja marka forskot þegar tíu mínútur voru eftir og þá hleypum við þeim aftur inn í leikinn. Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Ragnar ennfremur.