Augnabliks einbeitingarleysi kostaði stig

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði eitt af mörkum Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir tók á móti Augnabliki í 3. deild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í kvöld, í baráttunni um að stimpla sig inn í efri hluta deildarinnar.

Ægir byrjaði betur í leiknum og Brynjólfur Þór Eyþórsson kom þeim yfir strax á 10. mínútu. Augnablik fékk vítaspyrnu skömmu síðar en Ivaylo Yanachkov gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Gestirnir náðu hins vegar að svara fyrir sig á 35. mínútu og þeir fengu svo aðra vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks, sem Yanachov réði ekki við, 1-2 í hálfleik.

Petar Banovic jafnaði fyrir Ægi í upphafi síðari hálfleiks, með kostulegu skoti sem markmaður Augnabliks missti í netið, en allt kom fyrir ekki. Augnabliks einbeitingarleysi á stuttum kafla um miðjan seinni hálfleikinn færði gestunum tvö mörk, það fyrra úr þriðju vítaspyrnu leiksins á 57. mínútu og það síðara á 64. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki og þrátt fyrir ágætar sóknir náðu Ægismenn ekki að minnka muninn á lokakaflanum.

Ægir er nú í 7. sæti deildarinnar með 14 stig en Augnablik lyfti sér með sigrinum upp í 3. sætið með 19 stig.

Fyrri greinMetaregn á Selfossi – Álfrún og Daníel settu Íslandsmet
Næsta greinÁrborg vann mikilvæg stig – Markalaust á Stokkseyri