Auður Helga Íþróttamaður Ölfuss 2020

Auður Helga með verðlaunin. Ljósmynd/Ölfus

Auður Helga Halldórsdóttir var valin íþróttamaður Sveitarfélagsins Ölfuss árið 2020 og voru verðlaunin afhent um síðustu helgi.

Auður Helga er fædd árið 2005 og því á 16. aldursári. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún náð ótrúlegum árangri á íþróttasviðinu og er framúrskarandi og einstaklega fjölhæf íþróttakona. Í ár var hún bæði tilnefnd af Knattspyrnufélaginu Ægi fyrir knattspyrnu og af íþrótta- og tómstundanefnd fyrir fimleika en auk þessara tveggja greina hefur Auður Helga átt góðu gengi að fagna á frjálsíþróttavellinum undanfarin ár og unnið fjölda Íslandsmeistaratitla.

Auður æfir knattspyrnu með sameiginlegu liði Selfoss/Ægis/KFR/Hamars í 3. flokki í knattspyrnu og hefur að undanförnu einnig æft með meistaraflokki Selfoss. Þá hefur hún verið valin í úrtakshóp hjá KSÍ og var á dögunum valin í æfingahóp U16 ára landsliðsins.

Þá æfir hún fimleika með 1. flokki kvenna hjá fimleikadeild Umf. Selfoss og er lykilmanneskja í sínu liði sem er núverandi Íslandsmeistari í 1. flokki. Auður Helga er í úrvalshópi unglinga og stefnir ásamt liði sínu á Evrópumót í hópfimleikum.

Auk Auðar Helgi voru fimm aðrir íþróttamenn heiðraðir fyrir góðan árangur árið 2020. Meðal þeirra var bróðir hennar, Viktor Karl Halldórsson fyrir frjálsar íþróttir, en hinir voru Óskar Gíslason fyrir golf, Halldór Garðar Hermannsson fyrir körfuknattleik, Gyða Dögg Heiðarsdóttir fyrir akstursíþróttir og Glódís Rún Sigurðardóttir fyrir hestaíþróttir.

Fyrri greinHrunamenn og Selfoss töpuðu
Næsta greinÆttfræðibækur á bókamarkaði