Auðveldur sigur Selfoss

Selfoss vann auðveldan 4-0 sigur á 3. deildarliði KB í Borgunarbikar karla í knattspyrnu í kvöld. Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit í fyrsta sinn síðan 1990.

Logi Ólafsson stillti upp sterku liði gegn 3. deildarliðinu og Selfyssingar tóku strax öll völd á vellinum. Leikurinn minnti helst á handbolta þar sem Selfyssingar léku boltanum á gönguhraða á milli sín nær allan fyrri hálfleik fyrir framan þétta vörn KB.

Á fyrstu tíu mínútunum höfðu bæði lið þó átt dauðafæri en Ólafur Finsen lét verja frá sér einn á móti markmanni og skömmu síðar slapp sóknarmaður KB einn innfyrir en skaut framhjá úr góðu færi. Þetta hringdi viðvörunarbjöllunum hjá þeim vínrauðu sem sóttu látlaust að marki KB í kjölfarið.

Ísinn var brotinn á 24. mínútu þegar Jón Daði Böðvarsson skoraði með góðum skalla eftir aukaspyrnu Joe Tillen. Fimm mínútum síðar bætti Ólafur Finsen við öðru marki Selfoss eftir hornspyrnu. Fyrirliðinn Endre Brenne skallaði boltann inn í markteiginn á fjærstöng þar sem Ólafur flikkaði snyrtilega yfir markvörð KB.

Staðan var 2-0 í hálfleik og þannig hélst hún allt fram á 78. mínútu þegar Abdoulaye Ndiaye gott mark úr markteignum eftir viðstöðulausa fyrirgjöf Tómasar Leifssonar úti á hægri kantinum. Fram að þessu hafði seinni hálfleikur verið mjög bragðdaufur en Selfyssingar höfðu öll tök á leiknum án þess að fá mörg færi.

Jon Andre Royrane bætti fjórða markinu við á 81. mínútu þegar hann hamraði góða fyrirgjöf Joe Tillen í netið af stuttu færi.

Selfyssingar eru því komnir í 8-liða úrslit ásamt Fram, Grindavík, ÍBV, Stjörnunni og Þrótti Reykjavík. Á morgun leikur KR gegn Breiðablik og Víkingur R gegn Fylki. Dregið verður í næstu umferð í hádeginu á miðvikudaginn.