Auðun Helgason í Selfoss

Samkvæmd heimildum sunnlenska.is verður reynsluboltinn Auðun Helgason spilandi aðstoðarþjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu.

Selfyssingar hafa boðað til blaðamannafundar nú síðdegis þar sem ráðning Auðuns verður tilkynnt.

Auðun er 36 ára miðvörður og hefur stærstan hluta ferilsins leikið með uppeldisfélagi sínu, FH. Hann fór erlendis í atvinnumennsku 1997 og lék skamman tíma með Neuchatel Xamax í Sviss áður en hann hélt til Noregs og lék í þrjú ár með Viking í Stavangri.

Árið 2000 gekk hann í raðir Lokeren í Belgíu og lauk ferlinum á erlendri grund hjá Landskrona í Svíþjóð. Þá gekk hann til liðs við FH veturinn 2004-2005 og varð Íslandsmeistari með þeim 2005 og 2006.

Auðun hefur einnig leikið með Leiftri á Ólafsfirði, 1996-1997, þar sem hann var m.a. liðsfélagi Selfyssinganna Páls Guðmundssonar og Daða Dervic.

Auðun lék með Fram 2008 og 2009 og nú síðast með Grindavík.

Nánar verður fjallað um ráðningu Auðuns að loknum blaðamannafundinum.