Auðun framlengir við Selfoss

Auðun Helgason, aðstoðarþjálfari meistaraflokks, framlengdi samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss um eitt ár í dag.

Auk þess að aðstoða Loga Ólafsson með meistaraflokk mun Auðun sérstaklega taka þátt í mótun yngri leikmanna Selfoss og koma að yfirbyggingu yngri flokka starfsins hjá félaginu.

Ekki er ljóst hvort Auðun mun spila með Selfyssingum í Pepsi-deildinni á næsta ári. Hann sleit krossband á miðju sumri eftir að hafa leikið sjö leiki með liðinu í 1. deildinni í sumar.

Hann fer í aðgerð vegna meiðslanna á morgun og tíminn mun svo leiða það í ljós hvort hann dusti rykið af skónum aftur þegar fer að vora.