„Áttum skilið stig“

„Þegar upp er staðið þá er ég mjög vonsvikinn með úrslitin,“ sagði bakvörðurinn Martin Dohlsten eftir tap Selfyssinga gegn Stjörnunni í kvöld.

„Við börðumst vel og áttum skilið stig út úr þessum leik en þegar við erum að gefa andstæðingunum auðveld mörk þá er auðvitað erfitt að fá eitthvað út úr leiknum,“ sagði Martin í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þeir lágu dálítið á okkur í fyrri hálfleik, reyndu langar sendingar og gerðu það vel en leikurinn snerist við í seinni hálfleik. Við sóttum og sóttum og reyndum að bæta við marki. Þetta leit vel út hjá okkur á köflum en það dugði ekki til.“

Martin hefur nú leikið tvo leiki með Selfossliðinu eftir að hann kom frá Svíþjóð og segist kunna vel við sig á Selfossi. „Mér líkar mjög vel við bæinn og ég hef mikla trú á liðinu. Lokabaráttan í deildinni verður athyglisverð en ég hef fulla trú á því að við náum að halda okkur í deildinni,“ sagði Svíinn geðþekki að lokum.

Fyrri greinStjarnan – Selfoss 3-2
Næsta greinEnn ein metvikan í Veiðivötnum