„Áttum að vinna þennan leik“

Arnar Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, er búinn að fá alveg nóg af því að spila gegn ÍBV en liðin skildu jöfn, 25-25, þegar þau mættust í þriðja sinn á sex dögum í kvöld.

„Við byrjuðum ekki leikinn, það var ekkert í gangi í sókninni, menn voru staðir og hægir og hlupu ekki heim. Þeir komust í 5-0 en við náðum að vinna okkur inn í leikinn og komast fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik.

Við áttum að vinna þennan leik, við komum okkur í stöðu til að gera það en erum klaufar að klára þetta ekki. Við gerðum mörg mistök í sókninni sem gáfu þeim hraðaupphlaup og komu þeim inn í leikinn aftur,“ sagði Arnar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Eftir að Selfoss komst yfir í upphafi seinni hálfleiks skiptu Eyjamenn um gír í vörninni og Selfossliðið átti í mesta basli í sókninni í framhaldinu.

„Við höfum átt í erfiðleikum með þennan varnarleik hjá ÍBV, það má ekki taka það af þeim að þeir eru mjög góðir í vörn og spila hana vel. Þeir eru besta lið deildarinnar, það er ekki spurning,“ sagði Arnar, en er hann ekki orðinn þreyttur á að spila gegn ÍBV?

„Jú, það er bara vonandi að ÍBV komist beint upp svo að við þurfum ekki að spila við þá í umspilinu ef við komumst þangað.“

Fyrri greinSvekkjandi jafntefli gegn toppliðinu
Næsta greinFínn seinni hálfleikur dugði ekki til