Áttu að fá meira út úr leiknum

Ægir tapaði dýrmætum stigum í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við topplið Léttis á heimavelli.

Gestirnir komust yfir strax á 5. mínútu en eftir það tóku Ægismenn öll völd á vellinum og voru mun sterkari aðilinn. Luc Mahop jafnaði leikinn fyrir Ægi og Michael Jónsson kom þeim síðan yfir og staðan var 2-1 í hálfleik. Ægismenn fengu fjölmörg færi í fyrri hálfleik og hefðu auðveldlega getað bætt við fleiri mörkum.

Seinni hálfleikur var jafnari og gestirnir jöfnuðu metin um miðjan síðari hálfleik með marki eftir hornspyrnu. Þar við sat þrátt fyrir að Ægismenn hefðu fengið góð færi á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki.

Ægir er áfram í 6. sæti riðilsins með 7 stig en Léttir er á toppnum með 14 stig.