Átta Sunnlendingar á Smáþjóðaleikunum

Fjóla Signý Hannesdóttir keppir í 400 m grindahlaupi. Ljósmynd/Aðsend

Átta Sunnlendingar verða meðal keppenda á Smáþjóðaleikunum sem fara fram í Svartfjallalandi dagana 27. maí til 1. júní næstkomandi.

Bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir frá Hveragerði eru í blaklandsliðinu og í körfuboltalandsliðinu eiga Þorlákshöfn og Hveragerði sína fulltrúa, Halldór Garðar Hermannsson og Ragnar Ágúst Nathanaelsson.

Selfyssingar eiga þrjá keppendur í júdó á Smáþjóðaleikunum, Breka Bernhardsson í -73 kg flokki, Egil Blöndal í -90 kg flokki og Þór Davíðsson í -100 kg flokki.

Þá fer einn frjálsíþróttamaður frá Umf. Selfoss á mótið en Fjóla Signý Hannesdóttir keppir í 400 m grindahlaupi.

Ísland sendir 120 íþróttamenn á Smáþjóðaleikana auk þess sem fjöldi liðsstjóra, þjálfara, sjúkraþjálfara og dómara fylgja hópnum og eru nokkrir Sunnlendingar í þeim hópi einnig, meðal annars Sigurður Örn Gunnarsson sjúkraþjálfari blaklandsliðsins, Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, Baldur Þór Ragnarsson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í körfubolta og Júlía Þorvaldsdóttir flokksstjóri hjá sundlandsliðinu.

Fyrri greinVínrauður dagur á Selfossi – Uppselt á 25 mínútum
Næsta greinSELFYSSINGAR ÍSLANDSMEISTARAR Í HANDBOLTA