Átta mörk í mögnuðu jafntefli

Árborg og Stokkseyri skildu jöfn, 4-4, í bráðfjörugum leik í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Árborgarar voru sprækari í fyrri hálfleik en leikurinn var opinn og skemmtilegur. Árborg leiddi 3-0 í leikhléi eftir að Daníel Ingi Birgisson hafði skorað þrennu.

Stokkseyringar voru hins vegar mun sterkari í síðari hálfleik og Örvar Hugason minnkaði muninn í 3-1 strax á 5. mínútu síðari hálfleik. Mörkin komu á færibandi í upphafi síðari hálfleiks því Magnús Helgi Sigurðsson kom Árborg í 4-1 á 54. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Þórhallur Aron Másson fyrir Stokkseyri.

Alexander Kristmannsson skoraði þriðja mark Stokkseyrar á 71. mínútu og Örvar kórónaði svo endurkomu Stokkseyringanna með aukaspyrnumarki á 88. mínútu. Lokatölur 4-4.

Toppbaráttan í riðlinum er í einum hnút en lið Vatnaliljanna er í vænlegustu stöðunni. Léttir, Árborg, Stokkseyri og Vatnaliljur eru öll með 7 stig, en Liljurnar eiga leik til góða og sigurinn vísan gegn botnliði Kónganna. Stokkseyri og Léttir eiga svo eftir að mætast innbyrðis, sem og Árborg og Vatnaliljur í lokaumferðinni.

Fyrri greinSandvíkurtjaldurinn lentur
Næsta greinÁrborg vann í bráðabana