Átta milljón króna hagnaður af ULM

Átta milljón króna hagnaður varð af Unglingalandsmóti UMFÍ 2012 sem haldið var á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Þetta kom fram á Landsmótsfundi HSK sem haldinn var í Selinu á Selfossi í kvöld. Tekjur af mótinu voru 20,8 milljónir króna en kostnaðurinn 12,7 milljónir.

Hagnaður Héraðssambandsins Skarphéðins af mótinu var því um 8 milljónir króna og rennur 70% þeirrar upphæðar til þeirra aðildarfélaga sem unnu sjálfboðavinnu á mótinu í samræmi við unnar vinnustundir.

Þannig unnu 650 sjálfboðaliðar við mótið, samtals 8.096 vinnustundir. Fulltrúar flestra aðildarfélaganna mættu á fundinn í kvöld til þess að taka við vinnulaununum. Samtals voru rúmar 5,6 milljónir króna greiddar út til félaganna.

Deildir innan Umf. Selfoss lögðu fram mesta vinnu á mótinu og fengu því stærstu sneiðina í kvöld, samtals rúmar 3,2 milljónir króna. Stærsta skerfinn af þeirri tölu fékk knattspyrnudeildin rúmlega 938 þúsund fyrir sína vinnu.

Í máli Þóris Haraldssonar, formanns unglingalandsmótsnefndar, kom fram að mótið hafi gengið gríðarlega vel fyrir sig og engin vandamál hafi komið upp við þessa stóru framkvæmd. Yfir 2.000 skráningar voru í mótið en 1.952 keppendur skiluðu sér á mótsstað og greiddu þátttökugjöld. Lauslega er áætlað að um 15.000 gestir hafi sótt Selfoss heim þessa helgi.

Auk þess að gera upp Unglingalandsmótið var Landsmót UMFÍ 2013 kynnt á fundinum en mótið verður haldið á Selfossi fyrstu helgina í júlí á næsta ári.