Átta marka jafntefli í síðasta heimaleiknum

Sigurður Snær Sigurjónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Átta mörk voru skoruð á Stokkseyrarvelli í kvöld, þegar Stokkseyri tók á móti Höfnum í síðasta heimaleik liðsins í 5. deild karla í knattspyrnu.

Stokkseyringar lentu undir með sjálfsmarki strax á 3. mínútu en tveimur mínútum síðar hafði Pétur Smári Sigurðsson jafnað leikinn. Gestirnir fengu vítaspyrnu á 32. mínútu og skoruðu úr henni, þannig að staðan var 1-2 í hálfleik.

Hafnarmenn juku forskotið í 1-3 þegar tæpt korter var liðið af seinni hálfleik en hlutirnir fóru að gerast fyrir alvöru á lokakaflanum. Sigurður Snær Sigurjónsson minnkaði muninn í 2-3 korteri fyrir leikslok og í uppbótartímanum jafnaði Árni Ísleifsson áður en gestirnir skoruðu sjálfsmark og staðan því orðin 4-3. En það var nóg eftir og á sjöundu mínútu uppbótartímans jöfnuðu Hafnarmenn og lokatölur urðu 4-4.

Stokkseyri er í 4. sæti deildarinnar með 23 stig þegar ein umferð er eftir. Liðið mætir Álafoss í lokaumferðinni og sigurliðið í þeim leik mun ljúka keppni í 4. sætinu í riðlinum.

Fyrri greinValskonur sterkari á lokakaflanum
Næsta greinHSK/Selfoss bikarmeistari 15 ára og yngri