Átta HSK met á öldungamóti – Óli með fimm gull

Ólafur Guðmundsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Meistaramót öldunga í frjálsum var haldið á Akureyri dagana 17. og 18. ágúst síðastliðinn. Tveir keppendur frá HSK tóku þátt í mótinu og settu samtals átta HSK met.

Ólafur Guðmundsson, Umf. Selfoss, keppti í fimm greinum í flokki 50–54 ára karla og vann þær allar og setti fimm HSK met. Hann tvíbætti met Yngva Karls Jónssonar í spjótkasti, kastaði lengst 40,28 metra. Hann tvíbætti einnig metið í lóðkasti, kastaði lengst 14,26 metra en Guðmundur Nikulásson átti gamla metið. Loks bætti hann 29 ára gamalt HSK met Ólafs Unnsteinssonar í sleggjukasti, en sleggjan flaug 39,34 metra.

Sigmundur Stefánsson, Umf. Þjótanda, keppti í fjórum greinum í flokki 70 – 74 ára og vann tvö silfur og tvö brons, auk þess að setja þrjú HSK met. Hann bætti eigið HSK met í spjótkasti, kastaði 18,01 metra og þá tvíbætti hann tæplega tveggja mánaða gamalt met Jóns M. Ívarssonar í lóðkasti, kastaði lengst 9,08 metra.

Sigmundur Stefánsson kastar spjóti. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinKlifruðu í skriðunni í Reynisfjöru
Næsta grein„Íbúarnir vonandi hoppandi ánægðir“