Átta Hamarskonur unnu öruggan sigur

Kvennalið Hamars í 1. deildinni í körfubolta vann öruggan sigur á Þór Akureyri á útivelli í dag, 46-75. Aðeins átta leikmenn Hamars ferðuðust norður.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en á síðustu mínútu leikhlutans skoraði Hamar átta stig í röð og breytti stöðunni úr 9-10 í 9-18. Hvergerðingarnir juku svo forskotið jafnt og þétt í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 24-41.

Þriðji leikhluti leiksins fer seint í sögubækurnar fyrir gæði en Hamar skoraði aðeins tvö stig út opnum leik á þessum tíu mínútum. Sex stig til viðbótar komu af vítalínunni og Hamar vann leikhlutann, 7-8.

Hamarskonur tóku svo aftur við sér í síðasta fjórðungnum þar sem þær bættu heldur betur í og juku muninn um ellefu stig í viðbót.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var best í liði Hamars en hún skoraði 16 stig og barðist vel á báðum endum vallarins. Íris Ásgeirsdóttir skoraði 15 stig, Álfhildur Þorsteinsdóttir 14 og Jenný Harðardóttir 13.