Atli Þór afgreiddi KFR – Uppsveitir og Árborg í góðum málum

Atli Þór Jónasson skallar að marki KFR í kvöld en Stefán Bjarki Smárason og Guðmundur Brynjar Guðnason eru til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Miðvikudagarnir bjóða upp á líf og fjör í 4. deild karla í knattspyrnu og sú varð einnig raunin í kvöld. Hamar hafði betur gegn KFR og Uppsveitir unnu enn einn sigurinn en Árborg gerði jafntefli í sínum leik.

Það var alvöru nágrannaslagur á Hvolsvelli þar sem Hamar heimsótti KFR. Rangæingar eru að dragast aftur úr toppliðunum og þurftu nauðsynlega á sigri að halda í kvöld. Það byrjaði reyndar ekki vel fyrir þá, Atli Þór Jónasson kom Hamri í 0-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Atli Þór var aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks og Ísak Leó Guðmundsson bætti svo við þriðja marki Hamars. En Rangæingar gáfust ekki upp. Helgi Valur Smárason minnkaði muninn á 58. mínútu Rangæingar þjörmuðu vel að Hamarsmönnum á lokakaflanum. Bjarni Þorvaldsson breytti stöðunni í 2-3 í uppbótar en nær komst KFR ekki og lokatölur urðu 2-3.

Árborg missti niður tveggja marka forystu þegar liðið tók á móti Álftanesi á gervigrasinu á Selfossi. Andrés Karl Guðjónsson kom Árborgurum yfir snemma leiks og Ingi Rafn Ingibergsson bætti við öðru marki af vítapunktinum á 26. mínútu. Álftanes átti hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik og þeir skoruðu tvö mörk með stuttu millibili, rétt fyrir leikhlé. Seinni hálfleikurinn var markalaus og úrslitin urðu 2-2, en bæði lið fengu dauðafæri til þess að klára leikinn.

Uppsveitir heimsóttu Berserki/Mídas á Víkingsvöllinn. Það var göngutúr í Fossvoginum fyrir Uppsveitamenn sem kláruðu leikinn í fyrri hálfleik. Páll Dagur Bergsson, Aron Freyr Margeirsson og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson komu Uppsveitum í 0-3 á fyrstu átján mínútunum. Þá var komið að Arnari Einarssyni sem skoraði mark ársins af 41 metra færi á 27. mínútu og áður en flautað var til hálfleiks hafði Máni Snær Benediktsson bætt fimmta markinu við. Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en Berserkir minnkuðu muninn með marki fimm mínútum fyrir leikslok, og þar við sat, 1-5.

Staðan í D-riðlinum er þannig að Hamar er í 2. sæti með 20 stig en KFR er áfram í 4. sæti með 13 stig. Í C-riðlinum eru Uppsveitamenn ósnertanlegir í toppsætinu með 24 stig en Árborg í 2. sæti með 22 stig og úrslitin í riðlinum nánast ráðin.

Fyrri greinVörur í sátt við móður náttúru
Næsta greinÍslensk þjóðlög og sálmar í Strandarkirkju