Atli skoraði sex og varði fimm

ÍF Mílan sótti Fjölni heim í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi. Fjölnismenn höfðu yfirhöndina allan tímann og unnu að lokum sannfærandi sigur, 28-23.

Fjölnir leiddi allan tímann og náði sex marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik, 12-6. Staðan var 15-12 í hálfleik en þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var munurinn aftur orðinn sex mörk, 21-15. Mílan náði ekki að brúa bilið á lokakaflanum og að lokum skildu fimm mörk liðin að.

Ívar Grétarsson og Atli Kristinsson voru markahæstir hjá Mílan með 6 mörk hvor en Atli fór í markið á lokamínútunum og varði 5 skot. Atli Vokes kom næstur í markaskoruninni með 5 mörk, Óskar Kúld Pétursson skoraði 2 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Ingvi Tryggvason, Eyþór Jónsson og Björn Freyr Gíslason skoruðu allir eitt mark.

Bogi Pétur Thorarensen varði sex skot og var með 33% markvörslu, Ástgeir Sigmarsson varði tvö skot og var með 13% markvörslu og Atli varði sem fyrr segir fimm skot og var með 62% markvörslu.

Mílan er í 8. sæti deildarinnar með 3 stig.

Fyrri greinJólanammi
Næsta grein1996 árgangurinn fjölmennastur