Atli Rafn bjargaði stigi

Stokkseyri lenti í basli þegar liðið heimsótti Afríku í 4. deild karla í knattspyrnu á Leiknisvelli í Breiðholti í gærkvöldi.

Afríka komst yfir á 34. mínútu leiksins og leiddi 1-0 í hálfleik. Heimamenn tvöfölduðu svo forystuna þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Stokkseyringar girtu sig hins vegar í brók og Þórhallur Aron Másson náði að minnka muninn á 70. mínútu. Sex mínútum síðar komst Afríka í 3-1 en Þórhallur var aðeins þrjár mínútur að minnka muninn aftur. 3-2 á 79. mínútu.

Stokkseyri reyndi svo allt hvað af tók að jafna metin og það tókst á 89. mínútu þegar gamli refurinn Atli Rafn Viðarsson fékk góða sendingu innfyrir og lagði knöttinn af yfirvegun í markið.

Fyrri greinSíðasta söluhelgi framundan
Næsta greinRafmagnstruflanir í Hveragerði