Artemisia sigraði aftur

Artemisia Bertus og Korgur frá Ingólfshvoli sigruðu í kvöld í gæðingafimi í Meistaradeildinni í hestaíþróttum í Ölfushöllinni.

Þau hlutu 7,72 í einkunn í úrslitunum. Artemisia stendur því á toppi einstaklingskeppninnar með fullt hús stiga eftir sigur á fyrstu tveimur mótum deildarinnar.

Í öðru sæti með stórglæsilega sýningu varð Sara Ástþórsdóttir á Dívu frá Álfhólum með einkunnina 7,48 og þriðji varð sigurvegarinn frá því í fyrra Jakob S. Sigurðsson á Árborgu frá Miðey.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Segull frá Flugumýri II urðu fjórðu með 7,05 og Sigurður Sigurðarson og Loki frá Selfossi í 5. sæti með einkunnina 7,00.