Ársæll Jónsson í Árborg

Knattspyrnufélag Árborgar hefur fengið Ægis-goðsögnina Ársæl Jónsson til liðs við sig og mun hann leika með liðinu í 3. deildinni í sumar.

Ársæll er 31 ára mjög reynslumikill framherji en hann hefur leikið hátt í 200 leiki fyrir Ægi en hann hefur verið í herbúðum liðsins allan sinn feril, ef frá er talið stutt stopp hjá Selfyssingum árið 2003.

Auk Ársæls hafa Árborgarar fengið miðjumanninn Halldór Áskel Stefánsson frá Magna og hinn geysiefnilega kantmann Pálma Þór Ásbergsson í sínar raðir. Pálmi er 18 ára gamall, uppalinn hjá Ægi en er samningsbundinn Selfyssingum og kemur til Árborgar á lánssamningi.

Allir eru þeir komnir með leikheimild og eru í leikmannahópi Árborgar sem mætir Víði í Garði í Bikarkeppni KSÍ á Selfossvelli á þriðjudagskvöld.