Arnór tryggði Selfossi sigur í uppbótartíma

Selfyssingar eru í hörkutoppbaráttu í sínum riðli í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu eftir sætan sigur á Fylki í Egilshöllinni í dag.

Fylkismenn komust yfir á 13. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik. JC Mack jafnaði fyrir Selfyssinga þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og á þriðju mínútu uppbótartíma tryggði Arnór Ingi Gíslason Selfyssingum sigurinn.

Selfoss er í 2. sæti riðilsins með 7 stig, eins og KR sem er í toppsætinu og ÍBV sem er í 3. sæti. Selfoss tekur á móti ÍBV í lokaumferðinni á meðan KR leikur gegn Leikni sem er í 4. sæti með 6 stig. Öll þessi lið eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina.