-1.6 C
Selfoss
Föstudagur 19. apríl 2024
Heim Íþróttir Arnór Bjarki skrifar undir hjá Selfoss Körfu

Arnór Bjarki skrifar undir hjá Selfoss Körfu

Arnór Bjarki Eyþórsson skoraði 17 stig fyrir Selfoss. Ljósmynd/Selfoss Karfa

Arnór Bjarki Eyþórsson skrifaði í dag undir nýjan leikmannasamning hjá Selfoss Körfu.

Arnór, sem er 18 ára gamall og efnilegasti leikmaðurinn sem komið hefur upp úr yngriflokkastarfi félagsins í nokkurn tíma, tók stórt stökk fram á við í vetur og var sá leikmaður sem bætti sig hvað mest. Stífar æfingar síðastliðið sumar skiluðu þeim árangri og Arnór er nú að leggja upp í næsta áfanga ferðalagsins.

Í vetur spilaði Arnór vaxandi rullu í Selfossliðinu, alla 20 leiki liðsins og var í byrjunarliði í 40% leikja. Hann lék tæpar 18 mínútur að meðaltali, skoraði 7 stig, tók tæp 3 fráköst og gaf liðinu 6 framlagsstig.

Hápunktinum náði Arnór í leik gegn Snæfelli 7. febrúar sl. þegar hann var stigahæstur með 27 stig á 28 mínútum rúmum, hitti úr 5 af 8 þristum (62%), tók 4 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og var næstframlagshæstur í liðinu með 23 punkta.

„Arnór Bjarki sýnir með fordæmi sínu hvaða braut yngri iðkendur hjá félaginu geta vænst að feta með elju- og vinnusemi, og er góð fyrirmynd í hvívetna. Það er sannarlega spennandi að fá að fylgjast með þessum vandaða pilti og hvert framtíðin mun leiða hann,“ segir í frétt á heimasíðu Selfoss Körfu.

Fyrri greinSagðist hamstra kannabis vegna COVID-19
Næsta greinÁ 149 km/klst hraða undir Eyjafjöllunum