Arnar ráðinn til Fjölnis

Arnar Gunnarsson, fyrrum leikmaður og þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, var í dag ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni í Grafarvogi.

Fjölnir leikur með Selfyssingum í 1. deildinni en liðið er skipað ungum og efnilegum leikmönnum úr Grafarvoginum.

Arnar gerði tveggja ára samning við Fjölni og í samtali við sunnlenska.is sagðist hann spenntur fyrir starfinu. „Já, Fjölnir er fjölmennasta íþróttafélag á landinu og þó að hefðin fyrir handbolta sé kannski ekki mikil í Grafarvoginum þá hefur verið unnið mjög gott starf þarna undanfarin ár. Leikmannahópurinn er skipaður ungum leikmönnum sem eru aldir upp hjá félaginu þannig að þetta er spennandi kostur fyrir mig sem þjálfara og ég hlakka mikið til,“ sagði Arnar í samtali við sunnlenska.is.

Síðasta sumar tók Arnar við kvennaliði Sotra SK í 2. deildinni í Noregi en hann samdi um starfslok við Norðmennina í upphafi þessa árs og kom þá aftur heim til Íslands.

Fyrri greinRaw pekankaka að hætti kokksins
Næsta greinTveir hjólamenn á slysadeild