Arnar og Bjarki í Árborg

Félagaskiptaglugginn hjá KSÍ lokaði um helgina og urðu nokkrar breytingar á leikmannahópum sunnlensku liðanna.

Árborg fékk tvo leikmenn að láni frá Selfoss, Arnar Frey Óskarsson og Árna Pál Hafþórsson, auk þess sem markvörðurinn Bjarki Jónsson gekk til liðs við Árborg, einnig frá Selfoss. Arnar og Árni léku einnig sem lánsmenn með Árborg í fyrra. Þá hefur Árborg fengið varnarmanninn Samuel Ochieng Sewe frá Hamri og Steinþór Arnarson frá HK.

KFR hefur styrkt lið sitt verulega því miðjumaðurinn Boban Jovic er genginn til liðs við Rangæinga frá Völsungi. Jovic lék með Selfyssingum í 1. deildinni sumarið 2008 og líkti Zoran Miljkovic, þjálfari Selfoss, honum við Maradona þegar best gekk. Rangæingar hafa einnig fengið tvítugan Walesverja, James Sherman, frá welska 3. deildarliðinu Fleur de lys Welfare. Sherman lék með unglingaliði Arsenal til fimmtán ára aldurs og þykir öflugur leikmaður. Þá hafa Rangæingar fengið markvörðinn Sigmar Karlsson í sínar raðir frá Árborg. Leiki Sigmar með KFR mun hann afreka það að hafa leikið með meistaraflokkum allra liðanna fimm á Suðurlandi.

Ægismenn höfðu hljótt um sig á félagaskiptamarkaðnum nú í maí en Milan Djurovic gekk í þeirra raðir í lok apríl frá Aftureldingu. Djurovic hefur áður leikið með Hamri, Hvöt, Neista á Hofsósi og Tindastól. Arnar Þór Ingólfsson, sem lék með Ægi í fyrra, hefur skipt yfir í Selfoss.

Eins og sunnlenska.is greindi frá fyrir helgi fékk Hamar tvo lánsmenn frá Þrótti R., Hákon Andra Víkingsson og Kristinn Steinar Kristinsson. Þriðji lánsmaðurinn frá Þrótti bættist við á laugardag en það er Vignir Örn Guðmundsson. Fyrr í mánuðinum hafði Hartmann Antonsson skipt úr Selfoss yfir í Hamar. Unga kempan Rafn Haraldur Rafnsson hefur hins vegar yfirgefið uppeldisfélag sitt og skipt yfir í Augnablik.