Arnar og Anna sigruðu í Brúarhlaupinu

Arnar Pétursson og Anna Berglind Pálmadóttir sigruðu í 10 km hlaupi í Brúarhlaupinu sem hlaupið var á Selfossi í dag.

Arnar hljóp 10 km á 33:18 mín en annar varð Mýrdælingurinn Guðni Páll Pálsson á 37:03 mín.

Anna Berglind hljóp á 39:16 mín en önnur varð Elín Edda Sigurðardóttir á 39:35 mín.

Í 5 km hlaupi sigraði Sæmundur Ólafsson í karlaflokki á 16:23 mín og Helga Guðný Elíasdóttir í kvennaflokki á 19:27 mín.

Benedikt Fadel sigraði í 2,8 km hlaupi á 10:10 mín í karlaflokki og Hólmfríður Þrastadóttir kom fyrst í mark í kvennaflokki á 12:07 mín.

Tímar í hjólreiðum eru ekki komnir inn á timataka.net, þar sem nálgast má alla tíma úr hlaupinu.

Einnig hlupu krakkar 8 ára og yngri 725 metra Sprotahlaup og var þátttakan í því góð og keppnisandinn gleðilegur.