Arnar hættur með Selfossliðið

Stjórn handknattleiksdeildar Umf. Selfoss og Arnar Gunnarsson, þjálfari meistaraflokks karla, hafa komist að samkomulagi um að Arnar hætti sem þjálfari meistaraflokks karla.

Arnar var með samning við Selfoss út næsta keppnistímabil en stjórn deildarinnar ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði sem var í samningnum.

Arnar tók við þjálfun liðsins vorið 2011 eftir að hafa þjálfað yngri flokka félagsins til margra ára, og hefur því stýrt ungu liði Selfoss síðastliðin tvö ár.

Selfyssingar höfnuðu í 5. sæti í 1. deildinni á nýliðinni leiktíð en þeir komust í undanúrslit í bikarkeppninni þar sem þeir töpuðu fyrir bikarmeisturum ÍR.

Í fréttatilkynningu frá stjórn handknattleiksdeildar kemur fram að hún muni nú einbeita sér að því mikilvæga verkefni að finna nýjan þjálfara fyrir næsta tímabil.

Fyrri greinFlot á undarlegum stað
Næsta greinGissur ráðinn framkvæmdastjóri