Arnar Geir stuðningsmaður ársins

Arnar Geir Helgason fékk nafnbótina „Stuðningsmaður ársins“ á aðalfundi Hamars í Hveragerði síðastliðinn sunnudag. Arnar hefur starfað á ritaraborðinu hjá körfuknattleiksdeildinni í að verða 18 ár.

Arnar var efnilegur handknattleiks- og knattspyrnumaður en miklar breytingar urðu í lífi hans við lok grunnskólagöngunnar þegar hann greindist með æxli við sjóntaug. Á sextánda ári fór því keppnisbaráttan af vellinum yfir í það að yfirstíga þann sjúkdóm og fjölmarga fylgikvilla og aukaverkanir sem komu í kjölfarið.

Þó að Arnar hafi ungur lent í þessu áfalli sinnti hann námi áfram og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og svo seinna kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands. Hann kennir í dag við Grunnskólann í Hveragerði.

Þegar Lárus Ingi Friðfinnsson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, leitaði eftir starfskröftum Arnars á ritaraborð körfuboltans fyrir nærri 18 árum síðan, var hann strax til og sá þannig fram á að halda sér í hringiðu íþróttanna í Hveragerði með þeim hætti. Arnar Geir hefur verið á nánst öllum leikjum mfl. karla og kvenna í Íslandsmóti og bikarleikjum síðan þá og sú vinna sem hann hefur innt af hendi fyrir Körfuknattleiksdeild Hamars er algerlega ómetanleg. Ef heimaleikir meistaraflokka Hamars eru á að giska 25 á ári þá er ljóst að Arnar Geir á nálægt 450 leiki við ritaraborðið að baki og er hann hvergi hættur.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Hamars.

Fyrri greinVill reisa vindmyllur í Þykkvabænum
Næsta greinUppfært: Hríðarveður í Mýrdalnum til morguns