Arnar fer til Noregs

Arnar Gunnarsson, fyrrum þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Sotra SK í Straume, skammt frá Bergen í Noregi.

Sotra SK leikur í 3. deild í Noregi en félagið er eitt stærsta íþróttafélag landsins með 1.850 iðkendur í boltaíþróttum.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig, þarna er á ferðinni ungt lið og félagið er að einbeita sér að því að byggja upp til framtíðar. Þarna er ný og glæsileg íþróttahöll sem tekur u.þ.b. 3.500 manns í sæti svo að aðstæðurnar eru eins og best verður á kosið,“ sagði Arnar í samtali við sunnlenska.is.

Arnar er Akureyringur að uppruna en hann hefur verið á Selfossi undanfarin tíu ár, fyrst sem leikmaður og þjálfari yngri flokka. Eftir að hafa aðstoðað Sebastian Alexandersson við þjálfun meistaraflokks tók hann við karlaliði Selfoss árið 2011 og fór m.a. með liðið í undanúrslit bikarkeppninnar í vetur.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is vildu Norðmennirnir fá íslenskan þjálfara til þess að breyta æfingamenningunni hjá félaginu og þar hafa íslenskir þjálfarar verið að fá háa einkunn. Arnar fékk t.d. meðmæli frá Ágúst Þór Jóhannssyni, þjálfara íslenska kvennalandsliðsins auk þess sem Norðmennirnir leituðu álits Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins á ráðningunni.

„Þetta verður eflaust bæði skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir mig. Fyrir utan það að læra tungumálið mun ég eflaust læra margt sem einstaklingur líka,“ segir Arnar ennfremur en hann hefur störf hjá Sotra í byrjun ágúst.

Fyrri greinHaukur Íslandsmeistari í gæðingaskeiði
Næsta greinReyna að viðhalda ferhyrndu fé