Arnar Þór í Árborg

Varnarmaðurinn Arnar Þór Úlfarsson er genginn í raðir Knattspyrnufélags Árborgar frá Pepsi-deildarliði Fylkis.

Arnar er 32 ára gamall reynslubolti sem hefur leikið nálægt 80 leiki fyrir uppeldisfélag sitt, Fylki, auk þess að hafa leikið með Selfyssingum og Aftureldingu í 1. og 2. deild.

Hann lék síðast með Fylkismönnum sumarið 2009 en skórnir hafa verið á hillunni síðan þá.

Auk Arnars Þórs fengu Árborgarar lánaða tvo efnilega leikmenn úr 2. flokki Selfoss, þá Þorstein Daníel Þorsteinsson og Markús Árna Vernharðsson. Þorsteinn var einnig lánaður til Árborgar í fyrra og lék þá sjö leiki með liðinu í 2. deildinni. Árborgarar fengu einnig Lárus Hrafn Hallsson og Stefán Jóhannsson frá Selfossi.

Töluverðar breytingar eru á leikmannahópi Árborgar frá því liðið féll úr 2. deildinni í fyrra en alls hafa tuttugu leikmenn gengið í raðir félagsins fyrir sumarið.

Félagaskiptaglugginn á Íslandi lokaði í gærkvöldi en önnur sunnlensk lið voru róleg í tíðinni í gær. Rangæingar fengu Karvel Erlendsson til liðs við sig frá Fylki og Kornel Piotr Sinicki frá Póllandi.

Þá voru félagaskipti Moustapha Cisse í Selfoss loksins staðfest en hann hefur æft með liðinu undanfarnar vikur og var búinn að semja við það.

Fyrri greinÚrsögn úr Skólaskrifstofu frestað
Næsta greinLeyft að tjalda við Sunnulækjarskóla