Arna valin fimleikakona ársins

Arna Hjartardóttir var valin fimleikakona ársins 2010 hjá fimleikadeild Umf. Selfoss.

Arna er 25 ára og keppir í hópfimleikum með liði Selfoss HM1 sem er meistarahópur Selfoss í hópfimleikum og samanstendur af stúlkum á aldrinum 16-25 ára.

Hún er fædd og uppalin í Hveragerði en er búsett í Þorlákshöfn í dag. Arna hefur æft fimleika frá því hún var smástelpa og allt frá því hún byrjaði hefur hún æft af mikilli alvöru og áhuga.

Arna á fast sæti í liði Selfoss sem lenti í 8. sæti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Malmö í Svíþjóð í haust.

Tólf stúlkur keppast um sæti í liðinu í hvert sinn auk tveggja varamanna. Arna stekkur í öllum umferðum á dýnu og trampólíni en einungis sex stúlkur af þessum tólf stökkva í hverri umferð svo það er mjög góður árangur að vera alltaf einn af þessum sex stökkvurum.

Í greinargerð með valinu segir að Arna sé íþróttakona af lífi og sál og leggi allt undir til að ná árangri. Hún er mikil og góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan. Hún er traustur liðsmaður og að eigin sögn ætlar hún að halda áfram í fimleikum á meðan hún hefur ánægju og heilsu til.
Arna stefnir ótrauð að koma liði sínu á Norðurlandamót Seniora sem haldið verður haustið 2011 í Noregi.

Fyrri greinMennirnir voru afar ógnandi
Næsta greinJóladagatal Sunnlenska