Arna Ómars í Selfoss

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið Örnu Ómarsdóttur til liðs við sig og mun hún leika með félaginu í Pepsi-deildinni í sumar.

Arna er 23 ára gömul og leikur stöðu miðvarðar. Hún er Bliki að upplagi en hefur einnig leikið í efstu deild með KR og HK/Víkingi auk þess sem hún á tíu landsleiki fyrir U17 og U19 ára lið Íslands.

Arna er heldur ekki ókunnug á Selfossi því hún lék þrjá leiki með liðinu í Pepsi-deildinni 2012 áður en hún hélt til Bandaríkjanna í háskóla. Hún lék með HK/Víkingi í Pepsi-deildinni fram eftir sumri í fyrra en er í háskóla í Alabama og leikur þar með liði Auburn háskólans. Arna útskrifast frá skólanum í maí þannig að hún mun ná heilu tímabili með Selfyssingum.

Fyrri greinJóhann Ólafur leggur hanskana á hilluna
Næsta greinHamar ekki með í byrjun