Ármann vann uppgjör botnliðanna

Jada Guinn var stigahæst hjá Hamri/Þór í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tók á móti Ármanni í uppgjöri botnliðanna í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Eftir jafnan leik hafði Ármann 73-77 sigur.

Leikurinn var hnífjafn í 1. leikhluta en í upphafi 2. leikhluta stungu Ármenningar af og breyttu stöðunni í 24-39. Þær sunnlensku svöruðu frábærlega fyrir sig og náðu að minnka muninn í þrjú stig en staðan var 39-43 í hálfleik.

Ármann var skrefinu á undan í 3. leikhluta en undir lok hans kom 10-2 áhlaup frá Hamri/Þór sem breytti stöðunni í 55-48. Ármann skoraði hins vegar síðustu fimm stigin í leikhlutanum og staðan var 55-57 þegar 4. leikhluti hófst.

Í upphafi hans átti Ármann góðan sprett og breytti stöðunni í 59-71 en heimakonur áttu magnaðan kafla í kjölfarið og minnkuðu muninn í eitt stig, 73-74. Nær komust þær ekki, Ármann skoraði síðustu fjögur stigin og tryggði sér sinn fyrsta sigur í vetur.

Jada Guinn var stigahæst hjá Hamri/Þór í kvöld með 24 stig og 7 fráköst og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði 14 stig.

Eftir fjórar umferðir er Ármann í 8. sæti deildarinnar með 2 stig en Hamar/Þór er á botninum án stiga.

Hamar/Þór-Ármann 73-78 (20-21, 19-22, 16-14, 18-21)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jada Guinn 24/6 fráköst/7 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 14, Jovana Markovic 11/17 fráköst, Ellen Iversen 9/14 fráköst, Mariana Duran 8/6 fráköst/8 stoðsendingar, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 4, Bergdís Anna Magnúsdóttir 3.

Fyrri greinÞyrlan kölluð út vegna slyss við Langjökul
Næsta greinRakel ráðin byggðaþróunarfulltrúi í Uppsveitunum