Ármann sigraði Hamar 106-102 í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi 1. deildar karla í körfubolta í Laugardalshöllinni í kvöld eftir magnþrungnar lokamínútur.
Ármenningar byrjuðu leikinn af krafti, skoruðu 37 stig í 1. leikhluta og virtust ætla að stinga af. Staðan í hálfleik var 66-44. Munurinn hélst í kringum tuttugu stigin í 3. leikhluta og þegar sá fjórði hófst var staðan 85-68.
Þá hófst ævintýraleg endurkoma Hamarsmanna sem pressuðu Ármann hátt á vellinum allan 4. leikhluta og það sló heimamenn algjörlega út af laginu. Hamar náði að minnka muninn í eitt stig þegar liðið var eftir en orkan fór þverrandi og liðið gerði dýr mistök í lokasóknunum sem kostaði Hamar mögulegan sigur.
Staðan í einvíginu er því 2-1 fyrir Ármanni og liðin mætast næst í Hveragerði á föstudagskvöld.
Jaeden King var stigahæstur Hamarsmanna með 39 stig og 7 fráköst, Fotios Lampropoulos skoraði 17 stig og tók 10 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson og Jose Medina skoruðu 12 stig og Medina sendi 13 stoðsendingar að auki. Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 10 stig, Daníel Sigmar Kristjánsson var frábær í 4. leikhluta skoraði 8 stig, tók 5 fráköst og stal 3 boltum og Ragnar Nathanaelsson skoraði 3 stig.

