Ari Gunn ráðinn þjálfari Hamars

Ari Gunnarsson mun snúa aftur í blómabæinn Hveragerði en hann hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hamars í körfubolta.

karfan.is greinir frá þessu.

Ari er vel kunnugur félaginu en hann spilaði með Hamri um skeið og þjálfaði jafnframt kvennalið félagsins á fyrsta ári liðsins í deild þeirra bestu. Ari er með mikla reynslu í þjálfun en hann var aðstoðarþjálfari hjá Val á síðasta tímabili. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2010 að það verður ekki spilandi þjálfari hjá Hamri.

Við sama tilefni var undirritaður samningur við fyrirliðann Halldór Gunnar Jónsson um áframhaldandi spilamennsku með strákunum í Hveragerði. Halldór var stigahæsti Íslendingurinn í liði Hamars á síðasta tímabili með 14,5 stig og 3 fráköst að meðaltali.

Til að samningarnir héldu örugglega voru þeir innsiglaðir í frystigeymslu Kjörís í Hveragerði, sem er einn aðalstyrktaraðila deildarinnar.

Fyrri greinGuðrún Inga og Árni Steinn kjörin íþróttamenn Flóahrepps
Næsta greinVeglokun í friðlandinu virt að vettugi